Rannveig er farin að blogga !
Sjáið hvað Lata Gréta aðhefst svona hversdags.
Gleðimenn = glaðir menn
Konur = menn
ergo
Þann 23. september fékk ein af stofnfélögunum nýjan titil - hún er orðin AMMA !!
Rannveig er að heimta teljara á síðuna. Ég veit svei mér ekki - kannski ef ég fæ nógu margar áskoranir í kommentakerfinu - mig langar líka að vita hverjir koma hér við og lesa það sem hér er skrifað.
Sælar gleðinnar konur og takk kærlega fyrir skemmtilegt kvöld.
Lúðukvöldið var í alla staði vel heppnað. Skemmtilegar konur, skemmtilegar umræður um ketti, börn, karlmenn, bækur, hrotur og svo ótal margt fleira, góður matur og drykkur en fyrst og fremst góður félagsskapur.
Ásta í Þingmúla sagði örugglega brandara kvöldsins en eins og gerist með góða brandara, það þarf að segja þá, ekki skrifa og verður því ekki reynt að endursegja hann hér,
Kolgríma, köttur húsfreyjunnar, var ekkert sérstaklega upprifin yfir þessum gestafans og var eldsnögg að skjótast út, þegar mér varð á að opna svaladyrnar. Sem betur fer, kom hún aftur til baka innan skamms. Anna Guðný og hún áttu svo í einuverjum stimpingum, sem ég kann ekki að skýra nánar en talið var að þær þyrftu báðar á einhvers konar sálgæslu að halda eftir þau samskipti.
Ég er viss um að Kolgríma á eftir að hafa illan bifur á okkur í framtíðinni.
Bestu þakkir fyrir góða kvöldstund !
Tóta
Svo virðist sem áhugi fyrir lúðukvöldinu hjá Rannveigu sé allnokkur þrátt fyrir efasemdir varðandi veitingarnar. En auðvitað er þetta rétt hjá Nínu: Ef hráefnið er nógu gott handa Kolgrímu er það nógu gott handa okkur.
Ef þið munið eftir fleiri konum sem ekki eru á póstlistanum og uppfylla skilyrðin um tengsl við Vallahrepp, endilega látið þessi boð út ganga. Það er nóg pláss hjá Rannveigu !
Ég lá andvaka í nótt og velti fyrir mér erfiðu vandamáli.
Eins og fram hefur komið ætlar Rannveig að bjóða til súpu á laugardaginn - fiskisúpu, talaði hún um. Í gær rakst ég á hana í Samkaup/Kaupfélaginu. Það eina sem hún hafði keypt voru fjögur mismunandi bréf af kattamat, laxabragð, humarbragð, grænmetis- og rækjublanda og svo eitthvað eitt enn sem ég man ekki hvað var. Það sem hélt svo fyrir mér vöku var að þarna hafi hún kannski verið að ná sér í efnivið í fiskisúpuna. Hún á að vísu kött, en kommon, fjögur bréf handa Kolgrímu einni !!
Ég sofnaði ekki í nótt fyrr en ég leysti málið fyrir mig: Tek með mér grænmeti og brauð og segist vera á sérstökum kúr !
Kveðja Tóta
Minni á áður auglýstan fund hjá Rannveigu nk. laugardagskvöld. Henni þætti ekki verra að vita svona nokkurn veginn hvað margar koma. Þið getið skráð ykkur hér í athugasemdirnar, sent mér eða Rannveigu póst, nú eða bara hringt.
Vonum að sem flestar sjái sér fært að mæta.
Tóta