12/02/2005

Bréf frá Rannveigu



Sælar gleðikonur.
Í gær var haldinn fundur í félaginu í tilefni af því að gleðikonan Kristín Gunnarsdóttir flaug sem engill austur á Hérað.
Fundurinn var að Fjósakambsvegi 12 og var afar vel lukkaður. Kom hver og ein með eitthvað smáræði til að leggja í sameiginlegt hlaðborð og varð af því gnægtarborð mikið. Ekki var farið yfir lög félagsins en kannski að gleðikonur brjóti heilann um það fram að næsta fundi hvort þær eigi einhver uppáhaldslög sem við gætum gert að lögum félagsins. Mér dettur í hug Í Hallormsstaðaskógi, ekki það að mér finnist það sérstaklega skemmtilegt, en það tengist Vallahreppi. Við gætum svo á jólafundum sungið Jólasveinar einn og átta, því þar vill svo skemmtilega til að minnst er á Jón á Ketilsstöðum og Ísleif pabba Rúnars sem hefur eflaust heimsótt son sinn í Akurgerði á sínum tíma. Við skulum vara okkur á lögum Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings því hann syngur ekki skemmtilega um konur.
Reikningar félagsins voru ekki ræddir því Jónína Rós stærðfræðikennari var forfölluð vegna veikinda. Hún er mjög mikið veik eins og sést á því að geta ekki mætt á fund. Jónína Rós kemur kannski með skemmtileg orðadæmi á næsta fund svo við getum haft smá reikning.
Drepið var á það mál að við verðum að kanna betur hvort ekki leynist í hinum forna Vallahreppi konur sem ekki enn hafa mætt á fund í félaginu. Eru konur hvattar til að kynna Gleðikvennafélagið fyrir nágrannakonum sínum.
Undir liðnum önnur mál var rætt um sumargönguferð félagsins. Ekki var góð mæting sl. sumar og er nú stefnd af betri þátttöku. Ákveðið var að ganga í Stórurð þann 6. ágúst nk. en hafa 13. ágúst til vara ef veður verður óhagstætt þann 6. Eru konur beðnar að taka þennan dag frá. Börn eru að sjálfsögðu velkomin. Minnst var á hvort karlar mættu koma en sú tillaga var einhvern veginn ekki afgreidd. Sjálfri finnst mér upplagt að hafa þetta fjölskylduferð og leyfa körlunum að upplifa hvað þeir eru heppnir að vera giftir skemmtilegum konum sem njóta sín í fjölmenni og út í náttúrunni.
Eitt mál er það sem ekki var rætt á fundinum en ég vil hér með koma inn á. Við höfum sl. 16 ár fundað hér heima á Héraði en finnst ykkur ekki kominn tími til að við kíkjum ögn út fyrir fjallahringinn? Hvað segið þið um að við felum Reykjavíkurdeildinni að taka á móti okkur í október? Við gætum farið í leikhús, Bláa Lónið, út að borða og bara átt góða helgi saman í höfuðborginni. Nú eru flestar okkar þannig að þurfa aðeins og spá í hvað hlutirnir kosta. Svona ferð þarf ekkert að kosta meira en 20 - 30.000 pr. mann svo ef við byrjum strax að leggja fyrir 3.500 til 4.000 kr. á mánuði þá eigum við vel fyrir þessu í haust. Bestu þakkir fyrir skemmtilegan fund stelpur og vinsamlegast lesið póstlistann því ég á ekki tölvupóstfang allra. Vinsamlegast framsendið póstinn til þeirra kvenna sem ekki eru á póstlistanum.

kveðja
Rannveig Árnadóttir